SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓĐLEIKUR
Markmið
Rannsóknirnar
  >Heilsufar
    >>Meinafræði
    >>Sníkjudýr
    >>Mengunarefni
    >>Mengunarefni í afurðum
Framvinda
Stofnanir og samstarfsaðilar
 

 

Mengunarefni

Á síðari árum hefur athygli í auknum mæli beinst að mengunarefnum í sjávarlífverum. Orsökin er aðallega af tveimur rótum. Í fyrsta lagi rýrir aukin mengun gæði sjávarfangs sem fæðu til manneldis. Í öðru lagi hafa komið fram vísbendingar um að uppsöfnun mengunarefna hafi áhrif á heilsufar og frjósemi lífvera.
Markmið rannsóknar á mengunarefnum í hrefnu beinist fyrst og fremst að kanna styrk ólíkra efna í vefjum dýranna (húð, spik, vöðvi, nýra, lifur, bein) og kanna hugsanlegar vísbendingar um áhrif hinna ýmsu efna á heilsufar dýranna. Í öðru lagi verður leitast við að svara spurningunni hvort sýnataka af húð gefi upplýsingar um styrk þeirra í öðrum vefjum þar sem þau geta valdið skaða. Þetta er spurning sem fær mjög mikla umræðu um þessar mundir því ef um samband verður að ræða á milli styrks í húð og styrks í viðkvæmustu vefjum dýrsins, gæti sýnataka af húð á lifandi dýrum komið í stað þess að deyða dýrin en óyggjandi svar við þessari spurningu liggur ekki fyrir. Upplýsingar um þessi efni geta einnig gefið vísbendingar um stofngerð, þ.e. mismun milli stofna innan íslenskrar lögsögu annars vegar en einnig mismun milli stofna á íslenskum hafsvæðum og stofna annarra hafsvæða. Niðurstöður mælinga verða einnig metnar m.t.t. lífsögulegra þátta (aldur, kyn, kynþroska og fæðuvistfræði), stöðu í fæðukeðjunni (stöðugir ísótópar) og næringarástands.

Helstu efni og efnaflokkar sem mældir verða:

Ólífræn snefilefni - Kadmín (Cd), kvikasilfur (Hg), blý (Pb), kopar (Cu), sink (Zn), selen (Se), arsen (As), nikkel (Ni), króm (Cr), og mangan (Mn)

Þessi efni eru fyrir í náttúrunni en styrkur þeirra getur verið mismunandi frá einu hafsvæði til annars af bæði náttúrulegu orsökum og vegna mengunar af mannavöldum. Sum þessara efna eru mjög varasöm lífverum og er þar sérstaklega að geta kvikasilfurs, kadmíns og blýs. Í sumum þessara efna hefur lífríki íslenskra hafsvæða talsverða sérstöðu.
Nú liggja fyrir fyrstu mælingar á kvikasilfri í íslensku hrefnukjöti, en þær voru framkvæmdar af Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina.
Styrkur kvikasilfurs í hrefnu hér við land mældist meira en helmingi lægri en í hrefnu við Noreg.

Bendi-PCB-efni og pláguefni, aðallega skordýraeitur - Bendi-PCB-efni (ICES 7), DDTs, HCHs, HCB, chlordanes, toxaphenes, aldrin, dieldrin, endrin, endosulfan og heptachlor

Þessi efni voru mikið notuð í iðnaði (PCB-efni) og landbúnaði. Notkun þeirra er bönnuð á Vesturlöndum í dag en þau er að finna í lífríki hafsins þar sem þau geta valdið skaða. Sum þessara efna safnast fyrir á norðlægum slóðum fjarri notkunarstað.

PBDE-efni - PBDE 28, PBDE 47, PBDE 66, PBDE 100, PBDE 99, PBDE 85, PBDE 154, PBDE 153, PBDE 183, PBDE 209

Þetta eru brómdífenýletrar, sem eru notaðir sem eldhemjandi efni í ýmsum varningi, t.d. raftækjum eins og tölvum en einnig fatnaði. Þetta er sá efnaflokkur sem fær síaukna athygli því styrkur þeirra hefur farið mjög hratt vaxandi í t.d. móðurmjólk á vesturlöndum og þau eru farin að finnast í lífríki sjávar á norðurslóð í síauknum styrk. Lítil sem engin vitneskja liggur fyrir um þennan efnaflokk í lífríki hafsins við Ísland.

Díoxín og díoxínlík PCB - Díoxín og díbenzofúrön (17 myndbrigði skv WHO) og dioxinlík PCBs (12 myndbrigði skv WHO): PCB-77, PCB-81, PCB-126, PCB-169, PCB-105, PCB-114, PCB-118, PCB-123, PCB-156, PCB-157, PCB-167, PCB-189

Þessi efni eru með þeim eitruðustu sem menn þekkja en viðkvæmast er fóstur. Af þessum sökum hefur Evrópusambandið nýlega sett mjög ströng mörk fyrir þessi efni í matvælum auk þess sem aðgerðaáættlunum sem miða að minnkaðri losun þeirra í umhverfið hefur verið hrint í framkvæmd. Þau er að finna í ómengaðri náttúrunni en í mjög lágum styrk vegna t.d. skógarbruna auk þess sem þau gætu myndast þegar hraun rennur yfir gróður. Hins vegar hefur styrkur þeirra vaxið hratt síðstliðna átratugi þar sem stærstu uppspretturnar eru iðnaður ýmiskonar (málmiðnaður og annar efnaiðnaður), sorpbrennsla og klórbleiking pappírs.

PAH-efni - Phenanthrene, anthracene, fluoranthene, pyrene, benzo(b)naphto 2,1d, thiophene, benzo(c)phenanthrene, benzo(a)anthracene, chrysen/triphenylen, benzo(ghi)fluoranthene, benzo(bjk)fluoranthene, benzo(e)pyrene, benzo(a)pyrene, indeno1,2,3-cd pyrene, benzo(ghi)perylene, bnthanthrene, dibenz(ah)anthracene, coronene.

Þessi efni eru sum hver krabbameinsvaldandi, sérstaklega benzo(a)pyrene, og vinnur nú Evrópusambandi að því að setja mörk mörk fyrir þetta efni í matvælum sem mælikvarða á efnaflokkinn í heild sinni. Þessi efni er að finna í kolum og olíum og er aðallega fylgst með þessum efnum þegar olíuslys eiga sér stað á sjó þar sem þau eru þau hættulegustu lífríkinu við slíka atburði. Þau myndast einnig við bruna olía og kola auk þess sem þau myndast við bruna lífrænna efna almennt auk þess sem þau eru losuð við ýmsa iðnaðarframleiðslu. Flestar lífverur hafa getu til að brjóta þessi efni nokkuð hratt niður og losa með þvagi en meðan á þessari sundrun stendur verða þau hins vegar hvað hættulegust. Þau geta hins vegar dvalið lengi í fituvefjum þar sem efnaskipti eru hæg.

Til baka

 

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is