SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Markmið
Rannsóknirnar
  >Fæðuvistfræði
    >>Fæðusamsetning
    >>Orkubúskapur
    >>Árstíðabreytileiki
    >>Fjölstofnalíkan
Framvinda
Stofnanir og samstarfsaðilar
 

 

Fæðusamsetning

Tegundasamsetning fæðunnar á mismunandi svæðum og ársímum gefur upplýsingar um hlutfallslegt vægi hverrar ráðar og er því lykilatriði í fjölstofnarannsóknum. Nokkrar aðferðir til að meta samsetningu fæðunnar verða notaðar og niðurstöður þeirra bornar saman.

Magainnihald - Greining á innihaldi meltingarfæra er sú aðferð sem mest hefur verið notuð til að greina fæðusamsetningu í vistfræðirannsóknum. Ómelt fæða er tekin úr maga, greind til tegunda og stærð og aldur fæðutegunda metin. Ef fæðan er mikið melt, má oft engu að síður greina tegundir út frá útliti kvarna, eða annarra tormeltanlegra fæðuleifa, t.d. klóm smokkfiska. Lengd kvarnanna og árhringir segja einnig til um upprunalega stærð og aldur fiska.
Helstu kostir aðferðainnar er að hægt er að greina bráðina til tegunda og meta aldur og stærð hennar með nokkurri vissu. Hún gefur því mun nákvæmari mynd af fæðusamsetningunni en aðrar aðferðir, og hægt er að bakreikna samsetningu síðustu máltíðar þótt fæðan sé melt. Einnig fást með þessari aðferð upplýsingar um stærð máltíða og tímasetningu fæðunáms. Þessi aðferð gefur hins vegar einungis upplýsingar um fæðu stuttu áður en dýrið var veitt. Einnig er hugsanlegt að auðmelt fæða fari fljótar í gegnum meltingarveginn og verði þar af leiðandi vanmetin.

Fitusýrusamsetning í spiki og blóði - Fitusýrur í spiki sjávarspendýra eru af sumum taldar endurspegla fitusýrur í þeim lífverum sem þau lifa á. Þar af leiðandi sé nægjanlegt að efnagreina fitusýrur spiksins til að afla vitneskju um samsetningu fæðunnar. Jafnvel er talið að sýni úr ysta lagi spiksins sé nægjanlegt og því bjóði aðferðin upp á sýnatöku án þess að dýrið sé aflífað.

Ágæti aðferðarinnar er umdeilt og niðurstöður takmarkaðra rannsókna af þessu tagi hafa ýmist sýnt jákvæð tengsl eða engin. Sennilegt er talið að ef einhver tengsl er að finna milli spiksins og fæðunnar sé þau helst að merkja í innstu spiklögunum. Ef aðferðin reynist nothæf eru helstu kostir hennar þeir að hún krefst ekki aflífunar dýra og að niðurstöðurnar endurspegla fæðuval undanfarinna daga eða vikna í stað einnar máltíðar með athugunum á magainnihaldi. Helstu ókostir eru að aðferðin gefur í besta falli grófa mynd af fæðusamsetningunni og ómögulegt er að greina hlufallslegt vægi mismunandi fæðutegunda. Ef fæðan er mjög fjölbreytt er einnig líklegt að erfitt sé að ákvarða fæðuna. Aðferðin byggir á því að fyrir liggi þekking á fitusýrusamsetningu allra hugsanlegra fæðutegunda, og krefst því umtalsverðra rannsókna á öðrum lífverum.Við framkvæmd rannsóknarinnar verða teknir heilir spikkjarnar frá húð inn að vöðva. Sýni úr innsta, mið og ysta lagi kjarnarns verða fitusýrugreind. Fitusýrur í blóði, sem væntanlega endurspegla nýlega fæðu, verða einnig greindar. Niðurstöður verða bornar saman við fitusýrusamsetningu líklegra fæðutegunda.

Hlutfall ísótópa í húð og blóði Hlutföll köfnunarefnis- og kolefnissamsæta (ísótópa) í vefjum lífvera ráðast af fæðunni. Hlutföll köfnunarefnissamsæta (15N/14N ) breytist eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni. Með samanburði á hlutfalli þessara samsæta í vefjum lífvera er hægt að ákvarða stöðu þeirra í fæðukeðjunni og þar með meta helstu fæðutegundir.

Hlutföll kolefnissamsæta (13C/12C ) haldast óbreytt milli fæðuþrepa. Þau eru hins vegar frábrugðin á mismunandi svæðum og því geta upplýsingar um kolefnissamsætuhlutföllin gefið vitneskju um uppruna fæðunnar. Ef hvalir eru ólíkir öllum lífverum á sýnatökusvæðinu má leiða líkur að því að þeir hafi aflað fæðunnar á öðru svæði. Ef fæða hvalanna samanstendur af farfiskum sem hafa hlutföll frábrugðin staðbundnum fiskum á svæðinu ætti að vera auðvelt að rekja fæðutengslin.

Kostir samsætuaðferðarinnar er að líkt og með fitusýrurnar gefur hún upplýsingar um fæðu yfir lengra tímabil en greining á magainnihaldi. og að ekki er nauðsynlegt að aflífa dýrið því lítið húðsýni er nægjanlegt til rannsóknanna. Helsti annmarki aðferðarinnar er hins vegar að hún gefur einungis mjög grófa mynd af fæðusamsetningunni (fæðuþrep í vistkerfinu) og nýtast niðurstöðurnar því að mjög takmörkuðu leyti í fjölstofnalíkan af því tagi sem hér um ræðir. Hins vegar er aðferðin gagnleg til samanburðar við niðurstöður á greiningu magainnihalds.

Við framkvæmd rannsóknarinnar eru tekin húðsýni og hlutföll samsætna fendin með greiningu í massagreini. Athuganir á blóði sem væntanlega endurspegla nýlega fæðu verða einnig unnin til samanburðar á hluta hvalanna. Niðurstöður verða bornar saman við líklegar fæðutegundir á veiðisvæðinu.

Þvagrannsóknir - Upplýsingar um vatns- og saltbúskap dýranna og samsetning jóna í þvagi geta gefið upplýsingar um fæðumagn og fæðusamsetningu. Niðurstöður þvagrannsókna verða því bornar saman við niðurstöður annara fæðurannsóknaaðferða.

Til baka

 

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is