SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Markmið
Rannsóknirnar
  >Fæðuvistfræði
    >>Fæðusamsetning
    >>Orkubúskapur
    >>Árstíðabreytileiki
    >>Fjölstofnalíkan
Framvinda
Stofnanir og samstarfsaðilar
 

 

Árstíðabreytileiki á fjölda og dreifingu hrefnu

Til að geta lagt mat á hlutverk hrefnu í vistkerfinu á Íslandsmiðum þarf að liggja fyrir vitneskja um dreifingu hennar og fjölda á mismunandi árstímum. Hingað til hefur áhersla verið lögð á hvalatalningar um mitt sumar þegar fjöldi hrefnunnar er mestur (sjá mynd). Hámarksfjöldi og dreifing um hásumar eru því tiltölulega vel þekkt. Fjöldi og dreifing hrefnunnar að vori og hausti verða könnuð með talningum frá flugvélum og skipum annars vegar og hins vegar með gervitunglamerkingum.

Flug- og skipatalningar - Við hvalatalningar er siglt eða flogið eftir fyrirfram ákveðnum leitarlínum og allir hvalir sem til sést eru skráðir. Gert er ráð fyrir að allir hvalir sem koma upp á yfirborðið á ákveðnu belti sitt hvoru megin leitarlínunnar sjáist. Heildarfjöldi hvala á svæðinu er síðan fenginn með því að margfalda fjöldann með hlutfalli leitarbeltisins af heildarflatarmáli svæðisins og með því að leiðrétta gögnin fyrir þeim fjölda sem áætlað er að sé í kafi.

Upplýsingum um útbreiðslu hrefnu auk annara hvala á mismunandi árstímum hefur verið aflað með talningum í skipaleiðöngrum í tengslum við önnur verkefni Hafrannsóknastofnunarinnar. Þannig hafa gögn frá fyrri árum safnast í reglubundnum vorleiðöngrum í maí og seiðaleiðöngrum í ágúst. Í júní 2003 var einnig talið í karfaleiðangri á Árna Friðrikssyni djúpt suðvestur af landinu (sjá mynd).

Vegna þess hversu erfitt getur verið að koma auga á hrefnur nema við bestu skilyrði eru talningar af skipum ekki góður kostur fyrir hrefnutalningar. Þá getur reynst betur að telja hrefnur úr flugvél þar sem mögulegt að færa talninguna fljótt milli svæða eftir því sem veður er hagstæðast hverju sinni og tryggja að eingöngu sé talið við bestu aðstæður.

Gervitunglamerkingar - Með gervitungalmerkingum þar sem rekja má ferðir einstaklinga í gegnum gervinhött er vonast til að bæta megi við upplýsingar um far hrefnunnar umfram það sem fæst í talningum. Lítið er vitað um ferðir hrefnunnar hér við land utan árlegar ferðir meginhluta stofnsins upp á landgrunnið að vori og brotthvarf að hausti. Vetrarstöðvar hrefnunnar í Norður Atlantshafi eru óþekktar Ekki er ljóst að hve miklu leyti einstakir hvalir eru staðbundnir á sumrin eða flakki á milli svæða.

Til baka



 

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is