SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Markmið
Rannsóknirnar
  >Fæðuvistfræði
    >>Fæðusamsetning
    >>Orkubúskapur
    >>Árstíðabreytileiki
    >>Fjölstofnalíkan
Framvinda
Stofnanir og samstarfsaðilar
 

 

Fjölstofnalíkan

Forritið Gadget hefur verið þróað í samvinnu margra stofnana í rúman áratug, undir verkefnisstjórn á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Þetta forrit er hannað sem almennt tól til að lýsa vistkerfum í sjó og hefur verið notað til að lýsa þorski í Barentshafi, síld í Norðursjó, tegundasamspili í Írska hafinu auk fjölmargra tegunda á Íslandsmiðum og samspils þeirra.

Gadget byggir á áratuga rannsóknum á sviði fjölstofnalíkana og nýtir kunnáttu sem þar hefur skapast. Forritið er ansi flókið enda er ætlast til þess að það megi nota til að smíða líkön sem geti endurspeglað mjög breytilega tegundaflóru. Sem einfalt dæmi má nefna að líkön geta náð yfir margar tegundir, þær mega flytja sig á milli svæða, vöxtur þeirra getur byggt á fæðunámi eða má lýsa með föstum ferlum o.s.frv. Slík líkön innihalda ætíð nokkuð af óþekktum stærðum og eru þær metnar með tölfræðilegum samanburði við fyrirliggjandi gögn.

Á Íslandi byggir Gadget á reynslu við fyrirrennara sinn, Bormicon, sem var hluti af fjölstofnaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar á árunum uppúr 1990, en Bormicon byggir á lýsingu sem var sett fram í tímaritsgrein Gunnars Stefánssonar og Ólafs K. Pálssonar 1998.

Á undanförnum árum hefur Gadget verið þróað sem hluti af verkefninu dst2, sem styrkt er af ESB. Hluti af dst2-verkefninu hefur verið skilgreining og uppsetning samstilltra gagnagrunna. Þessir gagnagrunnar hafa verið skilgreindir þannig að þeir geta átt við hvaða sjávarvistkerfi sem er. Gagnagrunnarnir verða m.a. notaðir fyrir ýmis vistkerfi í Miðjarðarhafi og á landgrunni Iberíuskaga á næstu árum í öðru ESB verkefni, en þar er Hafrannsóknastofnunin þáttakandi og Gadget verður notað til að lýsa vistkerfunum.

Tölulegar niðurstöður hrefnurannsóknanna verða settar inn í gagnagrunna Hafrannsóknastofnunarinnar og þaðan inn í samstilltan gagnagrunn.Gadget verður síðan notað til að byggja upp líkön sem lýsa fyrst hegðun hrefnunnar, göngum og vexti. Fyrirliggjandi líkön sem lýsa öðrum tegundum (m.a. þorski) verða síðan tengd hrefnulíkaninu og þá verður vöxtur hrefnunnar látinn byggja á áti hennar af öðrum tegundum.

Til baka

 

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is