Auk erfðarannsókna eru gervitunglamerkingar
taldar ein vænlegasta aðferðin til að
skýra betur stofngerð hvala, auk þess sem
hún getur gefið áhugaverðar upplýsingar
um atferli og fæðuvistfræði.
Aðferðin er þó mjög vandasöm
tæknilega þar sem ekki er hægt að
handsama dýrin og þarf því að
skjóta verðmætum senditækjum úr
nokkurra tuga metra fjarlægð. Staðsetning
tækisins á dýrinu þarf að
vera nákvæm efst á bakinu, því
það er aðeins virkt þær fáu
sekúndur sem það er ofansjávar í
senn.
Haustferðir og vetrarstöðvar
- Eins og aðrir reyðarhvalir er hrefnan fardýr
en farmynstur tegundarinnar er þó nánast
óþekkt. Tegundarinnar hefur orðið vart
hér við land á öllum árstímum
og hefur hún verið veidd allt frá mars
til nóvember. Veiðarnar voru þó
langmestar á sumrin og virðist hrefnan algengust
á grunnsævi við landið á tímabilinu
maí til september. Á árunum 2001 og
2002 voru sett gervitunglamerki á þrjár
hrefnur í Skjálfandaflóa í ágúst
í þeim tilgangi að kanna far tegundarinnar
að hausti. Upplýsingar fengust mislengi um staðsetningar
dýranna, í 2, 9 og 13 vikur. Hrefnurnar héldu
sig á afmörkuðu svæði fyrir Norðurlandi,
frá Skagafirði austur fyrir Langanes, svo lengi
sem sendingar bárust, nema sú sem lengst sendi.
Hún fór austur fyrir land um 20. október
og synti rösklega suður fyrir land. Síðasta
merkið frá henni barst hinn 8. nóvember
um 500 sjómílur suður af landinu (sjá
mynd). Hugsanlegt er að hrefnur sem halda til á
íslenskum hafsvæðum við fæðunám
á sumrin tilheyri fleiri en einum stofni. Auk þess
að skýra erfðabreytileika hvalanna geta upplýsingar
um eina eða fleiri vetrarstöðvar, þar
sem mökunin fer fram, hugsanlega gefið vísbendingar
um uppruna íslensku hrefnunnar í einum eða
fleiri stofnum.
Til baka |