SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓĐLEIKUR
Markmið
Rannsóknirnar
  >Stofngerð
    >>Erfðafræði
    >>Gervitunglamerkingar
    >>Aðrir þættir
Framvinda
Stofnanir og samstarfsaðilar
 

 

Erfðafræði

Fyrri hrefnurannsóknir sem byggðu á DNA og prótein erfðamörkum bentu til að hrefnur frá Norður/Vestur Noregi séu frábrugnar hrefnu frá Vestur Grænlandi og Íslandi og tilheyri mismunandi stofneiningum (Árnason and Spilliaert, 1991; Daníelsdóttir 1994; Daníelsdóttir et al. 1992). Niðurstöður rannsóknar sem byggði á hvatbera DNA var ekki eins skýr er varðar stofngerðina í Norður Atlantshafi, en benti til að blöndun stofna á fæðusvæðum ætti sér stað (Bakke et al. 1996). Frekari rannsóknir á hrefnum frá Norður/Vestur Noregi sem byggðust á fleiri dýrum gáfu vísbendingu um að hugsanlega væru fleiri en einn stofn við fæðunám við Noreg á sumrin (Daníelsdóttir et al. 1995). Sýnafjöldi hrefna við Ísland og Grænland var of lítill til að geta skoðað hugsanlega blöndun stofneininganna. Til að hægt sé að skoða hugsanlega blöndun stofneininga við Ísland og hvort það sé munur milli ólíkra svæða eða árstíða við Ísland er nauðsynlegt að hafa fleiri sýni. Til að rannsaka stofngerð, far og erfðbreytileika íslenskrar hrefnu verða notuð hvatbera DNA og míkrósatellít DNA erfðamörk. Þetta eru sömu erfðamörk og Norðmenn nota til erfðarannsókna á sína hrefnu, en Rannsóknastofa Hafrannsóknastofnunarinnar í Erfðafræði sér um rannsóknirnar fyrir Norðmenn. Við framkvæmd rannsóknarinnar verður DNA einangrað úr húð og/eða vöðvasýnum og þau arfgreind með DNA erfðamörkum. Tölfræðiútreikningar byggja síðan á mismunandi arfbrigðum erfðamarkanna. Erfðasamsetning og erfðabreytileiki íslenskra hrefna verða borin saman við hrefnur frá öðrum hafsvæðum í Norður Atlantshafi (Grænlandi, Færeyjum og Noregi). Íslenskar hrefnur verða skoðaðar innbyrðis, þ.e. hrefnur frá mismunandi árum, árstímum og svæðum við Ísland verða bornar saman. Jafnframt kannað hvort hugsanlega sé blanda af fleirum en einum stofni við Ísland. Jafnframt stendur til að meta áhrif 18 ára verndunar hrefna við Ísland á erfðasamsetningu þeirra. Að lokum verður komið á laggirnar DNA einstaklings gagnagrunni til að hægt verði að rekja kjöt á markaði til uppruna síns.

Samanburður og skyldleiki við grænlenskar, færeyskar og norskar hrefnur - Samanburður á erfðasamsetningu hrefna frá ólíkum hafsvæðum getur gefið upplýsingar um stofngerð, skyldleika og far þeirra.

Munur á erfðasamsetningu milli ára, árstíða og svæða vegna hugsanlegrar blöndunar stofna á fæðusvæðinu við Ísland - Mögulegt er að fá samanburð á erfðasamsetningu hrefna allt að 20 ár aftur í tímann með því að greina eldri hrefnusýni með sömu erfðamörkum og þau nýju. Þannig fást upplýsingar um það hvort sami stofninn komi á íslenska fæðuslóð ár eftir ár. Einnig verður athugað hvort munur sé á milli árstíða og ólíkra svæða við Ísland. Hugsanleg blöndun stofna á fæðusvæðinu við Ísland verður metin með því að skoða frávik í erfðabreytileika dýranna. Ef fleiri en einn stofn eru á fæðuslóð við Ísland getur hlutfall ólíkra stofneininga í veiðistofninum verið breytilegur milli ára.

Áhrif 18 ára verndunar á erfðasamsetingu veiðistofnsins - Erfðasamsetning og erfðabreytileiki stofna getur breyst í tíma, td. ef stofn hefur minnkað eða stækkað vegna veiði eða verndunar eða ýmiskonar breytinga í umhverfi. Hægt er að skoða hvort erfðabreytileiki stofna hafi minnkað eða aukist með því að skoða breytingar í fjölda genaseta. Minnkun í fjöldi genaseta í stofni getur átt sér stað ef fjöldi dýra í stofninum minnkar mikið td. vegna umtalsverða breytinga í umhverfinu eða vegna ofveiði.

DNA-gagnagrunnur til greiningar á einstaklingum - DNA-gagnagrunnur sem hefur að geyma DNA-arfgerðir einstaka hrefna verður komið á laggirnar. Tilgangur hans er tvíþættur. Annarsvegar að nota arfgerðarupplýsingar úr grunninum til ýmissa erfðarannsókna, s.s. stofngerð, skyldleika, áhrif veiða á erfðasamsetningu ofl. Hinsvegar að geyma einstaklingsupplýsingar um allar veiddar hrefnur til að hægt sé að rekja kjöt á markaði til uppruna síns. Gagnagrunnurinn verður sambærilegur Norska hrefnu DNA-gagnabankanum en DNA-einstaklingsgreining á norskri hrefnu hefur verið stunduð síðastliðin ár og hafa norsk stjórnvöld komið upp DNA-gagnagrunni sem inniheldur einstaklingsupplýsingar fyrir allar hrefnur sem veiddar eru við Noreg.

Til baka

 

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is