SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
 
Almennt
Vöxtur og viðkoma
Fæða
Útbreiðsla og stofnmörk
Stofnstærð
Ástand og veiðiþol

 

Útbreiðsla og stofnmörk

Á undanförnum áratugum hefur Hafrannsóknastofnunin með reglulegu millibili staðið fyrir viðamiklum hvalatalningum í samvinnu við nágrannaþjóðir á Norður Atlantshafi. Þessi talningaröð (NASS) á ekki sinn líka í heiminum hvort sem litið er til sjávar- eða landspendýra. NASS talningaröðin hófst sem hluti rannsóknaátaks Hafrannsóknastofnunarinnar 1986-1989, en alls hafa nú farið fram fjórar slíkar talningar, árin 1987, 1989, 1995 og 2001. Á íslenskum hafsvæðum hefur mest áhersla verið lögð á stofnmat á langreyði og hrefnu. Á landgrunninu, sem er aðalútbreiðslusvæði hrefnu, er talið úr flugvél, en fjær ströndum eru skip notuð til talninganna. Meginútbreiðslusvæði hrefnu hér við land er á landgrunninu, og byggir stofnmat hrefnu því mestmegnis á flugtalningunum. Úrvinnsla gagnanna hefur farið fram í samvinnu við helstu sérfræðinga heims á þessu sviði, m.a. innan Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins (NAMMCO).

Mynd 1 sýnir útbreiðslu hrefnu í samhæfðum hvalatalningum Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga í júní-júlí 2001 (NASS-2001) og mynd 2 sýnir útbreiðsluna skv. flugtalningum á íslenska landgrunninu á sama tíma. Hrefna var í mestum mæli á grunnslóð, langmest á Faxaflóasvæðinu og suðaustan við landið.

Samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu IWC er hrefnum í Norður Atlantshafi skipt á fjögur stjórnunar- eða stofnsvæði:
1) austurströnd Kanada,
2) Vestur Grænland,
3) Austur Grænland-Ísland-Jan Mayen (Mið Atlantshafs stofn), og
4) norðaustur stofn (Barentshaf og austurströnd meginlands Evrópu).

Skipting þessi, sem rekja má til úttektar vísindanefndar IWC árið 1976 (sjá mynd 3), var fyrst og fremst byggð á útbreiðslu veiða og merkingum undanfarna áratugi.

Við síðari tíma úttektir á vegum IWC 1990 og NAMMCO (1997 og 2003) voru könnuð gögn um útlitseinkenni og erfðasamsetningu hrefna frá mismunandi hafsvæðum, auk gagna um merkingar og endurheimtur hrefnu. Samkvæmt erfðagögnunum var niðurstaðan sú að um a.m.k. 3 stofna væri að ræða og að gera mætti ráð fyrir þremur stofnum sem blandast lítið eða ekkert á fæðustöðvunum að sumarlagi. Gert var ráð fyrir að hver stofneining hefði höfuðútbreiðslu á hvalveiðimiðunum við Vestur Grænland, Ísland og Norður/Vestur Noreg. Þó svo að nákvæm stofnmörk væru ekki kunn, fannst marktækur munur í erfðamörkum milli þessara þriggja svæða.

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is