|  
				  				
		  				  
				   
				     Afar takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um 
                      fæðuval hrefnunnar við Ísland, en rannsóknir 
                      við Noreg og Japan hafa sýnt að tegundin 
                      étur fjölbreytt úrval fæðutegunda 
                      allt frá smásæjum svifkrabbadýrum 
                      (átu) að stórum þorskum. Fyrirliggjandi 
                      vitneskja á fæðu hrefnu hér við 
                      land byggir á athugunum á einungis 68 mögum 
                      sem safnað var úr veiðum og við hvalreka 
                      á yfir 20 ára tímabili, þ.e. 
                      á árunum 1977-1997. Samkvæmt þessum 
                      takmörkuðu gögnum er ljósáta 
                      um 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% 
                      og þorskfiskar um 6%. Gróf áætlun 
                      á fæðunámi hrefnu á Íslandsmiðum 
                      og nærliggjandi svæðum bendir til að 
                      hrefna taki til sín um 2 milljónir tonna af 
                      fæðu á ári, þar af er fiskmeti 
                      talið nema yfir 1 milljón tonna. Athygli skal 
                      vakin á að þó svo að hér 
                      kunni að vera um að ræða allgott mat á 
                      heildarfæðunáminu, skortir mikið á 
                      að nákvæm sundurgreining í fæðutegundir 
                      liggi fyrir. Því er enn sem komið er ekki 
                      unnt að meta hlutverk hrefnustofnsins í íslenska 
                      vistkerfinu og áhrif hans á afkomu fiskistofna 
                      við landið. Frumtilraunir með fjölstofnalíkani 
                      benda þó til að breytingar á stærð 
                      hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á 
                      afrakstursgetu þorskstofnsins hér við land 
                      til lengri tíma litið. Stærsti óvissuþáttur 
                      þessara útreikninga varðar fæðusamsetningu 
                      hrefnu og er því sérlega mikilvægt 
                      að afla frekari gagna á því sviði. 
                     |