SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Nýtt
Fréttasafn
Um hrefnu
Saga hrefnuveiða
Algengar spurningar og svör
 

 

Saga hrefnuveiða

Hrefna hefur verið veidd með frumstæðum aðferðum í nokkrar aldir, m.a. á strandsvæðum við Japan, Kóreu og Noreg en ekki í þeim mæli að það hafi haft áhrif á stofna tegundarinnar. Iðnvæddar hrefnuveiðar hófust ekki að marki fyrr en stofnar hinna stærri tegunda reyðarhvala voru farnir að minnka verulega, mörgum áratugum eftir uppfinningu sprengiskutulsins. Í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi gerðist þetta upp úr 1920 en í Suðurhöfum var ekki farið að veiða hrefnu og ísreyði að ráði fyrr en á sjöunda áratugi síðustu aldar. Tímabundið bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum aðildarþjóðanna í atvinnuskyni, sem gekk í gildi árið 1986, tók einnig til hrefnuveiða.

Norðmenn, sem gerðu fyrirvara við veiðibannið, eru eina þjóðin sem stundar hrefnuveiðar atvinnuskyni um þessar mundir. Veiði Norðmanna hefur numið 500-700 dýrum árlega undanfarin ár. Grænlendingar stunda einnig hrefnuveiðar, um 150 dýr árlega, samkvæmt fumbyggjaákvæði hvalveiðisáttmálans. Auk þess hafa Japanir veitt nokkur hundruð hrefnur árlega í rannsóknarskyni í Suður-Íshafi og Norður-Kyrrahafi um árabil.


Árið 1914 er talið marka upphaf hrefnuveiða hér við land þótt eflaust hafi stöku hrefnur verið ,,strengjárnaðar” fyrr. Það ár hóf Þorlákur Guðmundsson bóndi að Saurum, síðar kallaður Hrefnu-Láki, hrefnuveiðar í Ísafjarðardjúpi. Á næstu árum breiddust þessar veiðar út til nokkurra staða á Norðurlandi en umfang veiðanna var þó lítið og voru þær einkum stundaðar sem aukabúgrein með hefðbundnum fiskveiðum. Talið er að á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld hafi veiðarnar hér við land mest numið fáeinum tugum dýra á ári. Eftir stríðið varð nokkur aukning í hrefnuveiðum Íslendinga og þá byrjuðu Norðmenn einnig að veiða hrefnu hér við land. Veiðar Norðmanna við Ísland voru þó óverulegar fyrir 1960 en á tímabilinu 1961-1975 var meðalveiði þeirra um 100 hrefnur á ári. Hrefnuveiðar Norðmanna á grunnsævi við Ísland lögðust af við útfærslu landhelginnar í 50 mílur árið 1975.
Hrefnuveiðar Íslendinga voru ekki háðar veiðitakmörkunum til ársins 1974 en frá þeim tíma þurfti sérstakt leyfi til veiðanna. Á árunum 1977-1985 voru hrefnukvótar hér við land ákvarðaðir af Alþjóðahvalveiðiráðinu (IWC) og var hlutur Íslendinga af kvóta Mið-Norður-Atlantshafsstofnsins flest árin um 200 dýr. Veiðarnar fóru að langmestu leyti fram fyrir norðanverðu landinu á svæðinu frá Breiðafirði til Austfjarða. Þær voru mest stundaðar á litlum vélbátum (10-30 tonn) og var dýrunum landað á ýmsum stöðum, frá Brjánslæk í vestri að Neskaupstað í austri, þar sem hvalskurðurinn fór fram. Með tilkomu útflutnings hrefnuafurða seint á áttunda áratuginum voru reistar sérhæfðar vinnslustöðvar til frystingar hrefnuafurða á nokkrum stöðum á landinu.


Hrefnuveiðar í atvinnuskyni hafa ekki verið stundaðar hér við land síðan 1985. Árið 2003 voru veiddar 36 hrefnur hér við land sem hluti af rannsóknarátaki Hafrannsóknastofnunarinnar og fleiri rannsóknastofnana. Meginmarkmið rannsóknanna er að afla upplýsinga um fæðuvistfræði hrefnu hér við land svo að meta megi betur hlut tegundarinnar í vistkerfi hafsins við Ísland. Auk þessa meginmarkmiðs eru gerðar margvíslegar rannsóknir á sviði erfðafræði, tímgunarlíffræði og dýralæknisfræði.

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is