SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR

Nýtt
Fréttasafn
Um hrefnu
Saga hrefnuveiða
Algengar spurningar og svör
 

 

Nýtt

13. júní 2006
Rannsóknum á líffræði hrefnu haldið áfram

Að beiðni stjórnvalda gerði Hafrannsóknastofnunin veturinn 2002-2003 rannsóknaáætlun sem fól í sér veiðar á 200 hrefnum, auk flugtalninga og gervitunglamerkinga. Í ágúst 2003 hófust sýnatökur samkvæmt áætluninni. Á tímabilinu 18. ágúst til 30. september voru veiddar 37 hrefnur, á tímabilinu 4. júní til 5. júlí 2004 voru veidd 25 dýr og á tímabilinu 4. júlí til 17. ágúst 2005 voru veidd 39 dýr.

Sjávarútvegsráðuneyti hefur nú ákveðið að veiddar skuli allt að 50 hrefnur árið 2006.

Hrefna er algengasta tegund skíðishvala hér við land. Samkvæmt talningum sem fram fóru árið 2001 voru um 44 þúsund hrefnur á landgrunnssvæðinu við Ísland. Afar takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á líffræði og vistfræði hrefnu hér við land, en öflun slíkrar þekkingar er mjög nauðsynleg þar sem hinn mikli lífmassi tegundarinnar gefur til kynna að hún skipi veigamikinn sess í lífkerfi íslenska landgrunnssvæðisins.

Meginmarkmið rannsóknanna er að afla grunnþekkingar á fæðuvistfræði hrefnu hér við land en auk rannsókna á fæðusamsetningu með greiningu magainnihalds verður aflað annarra gagna sem nauðsynleg eru til að meta afrán tegundarinnar á hinum ýmsu fæðutegundum. Þar má nefna rannsóknir á orkubúskap, árstíðabundnum fjölda- og útbreiðslubreytingum og fæðuþörf. Þá verður unnið að þróun fjölstofnalíkans stofnunarinnar sem þegar tekur til þorsks, loðnu og rækju svo meta megi vistfræðilegt samspil hrefnu og þessara tegunda.
Auk þessa meginmarkmiðs hefur rannsóknin eftirfarandi markmið:
• Að kanna stofngerð hrefnu í Norður Atlantshafi með erfðafræðilegum aðferðum og gervitunglamerkingum.
• Að kanna sníkjudýr og heilsufar dýra í hrefnustofninum.
• Að safna upplýsingum um lífsögulega þætti; s.s. aldur og viðkomu hrefnu hér við land.
• Að kanna magn lífrænna og ólífrænna mengunarefna í hinum ýmsu líffærum hrefnu.
• Að meta gagnsemi ýmissa nýrra rannsóknaaðferða með samanburði við hefðbundnari aðferðir.

Hafrannsóknastofnunin hefur yfirumsjón með rannsóknunum en einnig koma að þeim sérfræðingar á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Landspítala Háskólaskjúkrahúsi.

Sjá nánar um rannsóknirnar á upplýsingavef Hafrannsóknastofnunarinnar um hrefnurannsóknir.

 



 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is